Sarri finnur fyrir pressunni

Gengi Chelsea í undanförnum leikjum hefur ekki verið gott og …
Gengi Chelsea í undanförnum leikjum hefur ekki verið gott og Sarri segist vera farinn að finna fyrir pressu. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, er farinn að finna fyrir pressunni sem fylgir því að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni en Chelsea féll úr leik í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í kvöld eftir 2:0-tap gegn Manchester United á Stamford Bridge. Ander Herrera kom United yfir á 31. mínútu og Paul Pogba skoraði annað mark United undir lok fyrri hálfleiks og þar við sat.

Gengi Chelsea í undanförnum leikjum hefur ekki verið gott en liðið steinlá gegn Manchester City í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar, 6:0, og þá tapaði Chelsea fyrir Bournemouth á útivelli í lok janúar, 4:0. „Við vorum óheppnir í kvöld því við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik en vorum samt 2:0-undir í hálfleik,“ sagði Sarri í samtali við BBC Sport. „Þeir fengu ekki mörg opin marktækifæri í leiknum.“

„Í seinni hálfleik virkuðum við ringlaðir en það var erfitt að vera 2:0 undir eftir fyrri hálfleikinn en ég er mjög ánægður með frammistöðu okkar í fyrri hálfleik samt sem áður. Auðvitað finn ég fyrir pressunni sem fylgir slæmum úrslitum en annars finn ég ekki fyrir henni. Við þurfum að laga ýmislegt og við verðum að bæta okkur í báðum vítateigum vallarins,“ sagði Sarri í samtali við BBC Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert