Tekur Zidane við Chelsea?

Zinedine Zidane er orðaður við knattspyrnustjórastarfið hjá Chelsea þessa dagana.
Zinedine Zidane er orðaður við knattspyrnustjórastarfið hjá Chelsea þessa dagana. AFP

Zinedine Zidane, fyrrverandi knattspyrnustjóri Real Madrid, er orðaður við stjórastöðuna hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea þessa dagana. Zidane lét af störfum hjá Real Madrid síðasta sumar eftir að hafa stýrt Real Madrid til sigurs í Meistaradeild Evrópu, þriðja árið í röð.

Maurizio Sarri tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea síðasta sumar af Antonio Conte en liðið fór mjög vel af stað undir stjórn Sarri. Gengi liðsins hefur hins vegar dalað mikið á síðustu vikum og liðið tapaði illa fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um þarsíðustu helgi, 6:0. Þetta var stærsta tap Chelsea í 28 ár en leikmenn liðsins virðast eiga í vandræðum með að aðlagast leikstílnum sem Sarri vill að liðið spili.

Zidane er sagður tilbúinn að taka við liðinu ef hann fær umtalsvert fjármagn til leikmannakaupa og þá er það algjört forgangsatriði hjá Frakkanum að halda Eden Hazard á Stamford Bridge en hann hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid að undanförnu. Chelsea er sem stendur í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 50 stig, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert