Vorum besta lið sem Bayern hefur átt

Xherdan Shaqiri lék ekki með Liverpool í síðasta leik vegna ...
Xherdan Shaqiri lék ekki með Liverpool í síðasta leik vegna meiðsla en vonast til að mæta Bayern annað kvöld. AFP

Svissneski knattspyrnumaðurinn Xherdan Shaqiri kveðst hafa óskað sér þess að Liverpool myndi mæta Bayern München en liðin eigast við í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Anfield annað kvöld.

Shaqiri lék með Bayern í tvö og hálft ár, án þess þó að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður, og vann til fjölda titla með félaginu. Meðal annars varð hann Evrópumeistari árið 2013 en það almanaksár vann Bayern einnig þýsku 1. deildina, þýsku bikarkeppnina, UEFA-ofurbikarinn og HM félagsliða.

„Ég var mjög ánægður því ég vildi spila á móti Bayern München, á móti mínum gömlu liðsfélögum og mínu gamla liði. Ég hlakka mjög til leiksins,“ sagði Shaqiri við heimasíðu Liverpool og gerði ekki lítið úr styrk Bayern-liðsins sem hann lék með:

„Tíminn þarna var stórkostlegur. Þetta voru ótrúleg tvö og hálft ár þar sem við unnum fjölda titla, meðal annars Meistaradeildina. Við vorum besta lið sem Bayern hefur átt,“ sagði Shaqiri.

Liverpool verður án miðvarðarins öfluga Virgil van Dijk annað kvöld þegar hann tekur út leikbann. Shaqiri, sem var ekki með Liverpool í síðasta leik vegna meiðsla en vonast til að spila á morgun, segir ljóst að einvígið verði afar snúið:

„Þetta verða tveir afar erfiðir leikir við Bayern því þetta er algjört topplið. Þetta verða líka athyglisverðir leikir því bæði lið vilja sækja og spila sóknarbolta. Við þurfum mjög góða frammistöðu í báðum leikjum til að komast áfram.“

mbl.is