Forráðamenn Chelsea funda um Sarri

Maurizio Sarri er valtur í sessi.
Maurizio Sarri er valtur í sessi. AFP

Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea funduðu í dag um Maurizio Sarri, knattspyrnustjóra liðsins. Lítið hefur gengið hjá Chelsea að undanförnu og er framtíð Sarri óljós. 

Stuðningsmenn félagsins bauluðu á leikmenn og þjálfarateymið eftir 2:0-tapið fyrir Manchester United í enska bikarnum í gær. Fyrr í mánuðinum tapaði Chelsea fyrir Manchester City, 6:0, og stuttu á undan fyrir Bournemouth, 4:0. 

Næstu tveir leikir Chelsea eru afar mikilvægir en fyrst mætir liðið Malmö í síðari leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar og síðan leikur liðið við Manchester City í úrslitum deildabikarsins. 

Sky Sports greinir frá því í dag að Sarri verði rekinn, tapi hann báðum leikjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert