Hóta leikmanni Fulham fangelsi

Fulham í leik í ensku úrvalsdeildinni.
Fulham í leik í ensku úrvalsdeildinni. AFP

Síðasta sumar braut hinn 18 ára gamli Ben Davis blað þegar hann varð fyrsti knattspyrnumaðurinn frá Singapúr til að skrifa undir atvinnusamning við enskt félag. Nú gæti hann þurft að afplána fangelsisvist vegna Englandsfararinnar.

Samkvæmt lögum í Singapúr verða allir karlmenn í landinu, sem eru orðnir 18 ára gamlir, að gegna samfélagsþjónustu í hernum, lögreglunni eða heimavarnarliði landsins í tvö ár. Sá sem hefur verið kvaddur til þjónustu en mætir ekki á yfir höfði sér fjögurra mánaða fangelsi, og það  getur verið framlengt til allt að þriggja ára fyrir þá sem ekki mæta í langan tíma.

BBC skýrir frá þessu og hefur eftir talsmanni varnarmálaráðuneytis Singapúr að Davis hafi ekki mætt til skyldustarfa.

„Hann mætti ekki þegar hann var kallaður til þjónustu hjá ríkinu, og auk þess dvelur hann erlendis án þess að vera með löglega brottflutningspappíra,“ sagði talsmaðurinn við BBC.

Íþróttafólk í landinu fær sjaldan undanþágur frá þessari borgaralegu skyldu, aðeins ef það kemur fram fyrir hönd Singapúr á stórum alþjóðlegum mótum eins og Ólympíuleikum, og á möguleika á að vinna til verðlauna.

Davis hefur verið kallaður inn í A-landsliðshóp Singapúr en ekki spilað leik enn sem komið er og í vetur hefur hann leikið með U18 ára liði Fulham. Hann er með þrefaldan ríkisborgararétt, í Bretlandi þar sem faðir hans er enskur, Taílandi, þar sem hann fæddist og móðir hans ólst upp, og í Singapúr þar sem hann hefur búið frá fimm ára aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert