Kane á undan áætlun

Harry Kane meiddist í leik gegn Manchester United í janúar.
Harry Kane meiddist í leik gegn Manchester United í janúar. AFP

Það styttist í að Harry Kane byrji að spila með Tottenham að nýju eftir meiðsli og vonir standa til þess að hann verði jafnvel klár í slaginn gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn.

Sky Sports greinir frá því að Kane hafi æft með Tottenham í gær og að hann sé á undan áætlun í bataferli sínu eftir að hann meiddist í ökkla í leik gegn Manchester United 13. janúar. Upphaflega var gert ráð fyrir því að markahrókurinn yrði frá keppni fram í mars en Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, hefur sagt að bati Kane sé búinn að vera með ólíkindum skjótur.

Í fjarveru Kane tókst Tottenham að vinna frækinn 3:0-sigur á Dortmund í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, og alla leiki sína í ensku úrvalsdeildinni, en liðið féll hins vegar úr leik í báðum ensku bikarkeppnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert