Mourinho lofaði undrandi Wenger

Arsene Wenger með verðlaun sín á Laureus-verðlaunahófinu í Mónakó í …
Arsene Wenger með verðlaun sín á Laureus-verðlaunahófinu í Mónakó í gærkvöld. AFP

Arsene Wenger fékk í gærkvöld heiðursviðurkenningu Laureus-akademíunnar fyrir ævistarf sitt í íþróttum en þessi 69 ára gamli knattspyrnustjóri setti mikinn svip á landslagið í enskum fótbolta á þeim rúmu tveimur áratugum sem hann stýrði Arsenal.

Wenger stýrði Arsenal meðal annars til þriggja Englandsmeistaratitla og sjö bikarmeistaratitla. Hann sagði við fjölmiðla í gærkvöld að hann væri stoltur af viðurkenningunni í ljósi þess að vanalega væru það íþróttamenn en ekki þjálfarar sem hana fengju. Frakkinn viðurkenndi einnig að það hefði komið sér á óvart að fá hrós frá José Mourinho á myndskeiði sem sýnt var á verðlaunahófinu í gær, enda elduðu þeir lengi grátt silfur saman.

„Það komu upp nokkur atriði á sínum tíma,“ sagði Mourinho í myndskeiðinu, en þegar hann var stjóri Chelsea og Wenger stjóri Arsenal sagði Portúgalinn meðal annars að Wenger væri „sérfræðingur í að mistakast“. Annað hljóð var komið í strokkinn í gær:

„Ég get bara talað fyrir sjálfan mig og sagt að ég naut samkeppninnar. Hin raunverulega virðing er alltaf til staðar. Hann [Wenger] skapaði ríka sögu fyrir sitt knattspyrnufélag. Hann er einn besti knattspyrnustjóri í sögu fótboltans,“ sagði Mourinho, og minntist á tímabilið ótrúlega 2003-2004 þegar Arsenal tapaði ekki deildarleik allan veturinn:

„Viðurnefnið er þarna - hinir ósigrandi. Ótrúlegt. Þjálfarakunnátta, hið nánast fullkomna lið,“ sagði Mourinho.

Arsene Wenger hætti með Arsenal í fyrravor eftir að hafa stýrt liðinu frá árinu 1996. Hann þótti frumkvöðull í ýmsu í enska boltanum og gjörbreytti til að mynda mataræði leikmanna, sem hann segir til dæmis hafa þurft drjúgan tíma til að sætta sig við að mega ekki borða Mars-súkkulaði! Þessi 69 ára gamli Frakki hefur verið án vinnu síðustu mánuði en meðal annars verið orðaður við starf yfirmanns knattspyrnumála hjá Frakklandsmeisturum PSG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert