Aldrei séð neinn fara svona með Robertson

Andrew Robertson og Serge Gnabry í baráttu um boltann á ...
Andrew Robertson og Serge Gnabry í baráttu um boltann á Anfield í gærkvöld. AFP

Ashley Cole, fyrrverandi landsliðsbakvörður Englands í knattspyrnu, segist aldrei hafa séð Andrew Robertson, vinstri bakvörð Liverpool, eiga í eins miklum vandræðum með andstæðing eins og í gærkvöld.

Kantmaðurinn Serge Gnabry reyndist Robertson erfiður í gær að mati Cole en það breytti engu um það að leikur Liverpool og Bayern München, í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, endaði með markalausu jafntefli.

Gnabry er 23 ára gamall Þjóðverji sem var leikmaður Arsenal á árunum 2011-2016 en spilaði sáralítið fyrir félagið. Hann fór þaðan til Werder Bremen og var svo seldur til Bayern sumarið 2017.

„Í ljósi þess að hann fékk ekki að spila hjá Arsenal – þeir töluðu alltaf um hve hæfileikaríkur hann væri en hann fékk ekki að spila – og hann fer svo aftur til Þýskalands þá hefur hann svo sannarlega bætt sig,“ sagði Ashley Cole á sjónvarpsstöðinni beIN Sports.

„Ég hef aldrei séð Robertson sigraðan svona af nokkrum andstæðingi, hvorki í Meistaradeildinni né ensku úrvalsdeildinni. Hann átti erfitt kvöld og hann veit að hann átti erfitt kvöld,“ sagði Cole.

Sjálfur var Gnabry nokkuð ánægður með sína frammistöðu gegn Robertson: „Þetta var góð barátta og skemmtileg. Vonandi fer ég næst fram hjá og skora. Það hefði verið gott að ná útivallarmarki en við erum ánægðir með okkar frammistöðu. Það er aldrei auðvelt að koma á Anfield,“ sagði Gnabry.

mbl.is