Bauð kvennaliðinu út að borða

Petr Cech.
Petr Cech. AFP

Petr Cech, hinn gamalreyndi tékkneski varamarkvörður enska knattspyrnuliðsins Arsenal, sló heldur betur í gegn hjá kvennaliði félagsins þegar hann heiðraði það fyrir góða frammistöðu með því að bjóða öllum leikmönnunum út að borða.

Danielle van de Donk, miðjumaður Arsenal og hollensku Evrópumeistaranna, sagði frá þessu á Instagram þar sem hún birti mynd af sér með Cech og aðra af honum með leikmönnum Arsenalliðsins.

Tilefnið var að liði Arsenal hefur gengið afar vel að undanförnu, það er nú aðeins tveimur stigum á eftir toppliði úrvalsdeildarinnar, Manchester City, og á tvo leiki til góða, og þá er Arsenal komið í úrslitaleik deildabikarkeppninnar þar sem það mætir City í úrslitaleik á laugardaginn.

Cech, sem er 36 ára gamall, kom til Arsenal frá Chelsea árið 2015 og hefur spilað 110 deildaleiki fyrir félagið en er nú í hlutverki varamarkvarðar og hefur spilað bikarleiki liðsins í vetur. Hann ætlar að leggja skóna á hilluna að þessu keppnistímabili loknu. Hann hefur spilað samfleytt í fimmtán ár í úrvalsdeildinni og á þar alls að baki 443 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert