Wenger tilvalinn arftaki Sarri

Arsene Wenger yrði góður hjá Chelsea að mati David Seaman.
Arsene Wenger yrði góður hjá Chelsea að mati David Seaman. AFP

Arsene Wenger er tilvalinn sem eftirmaður Maurizio Sarri hjá Chelsea, fari svo að hann verði rekinn sem knattspyrnustjóri liðsins. Þetta segir David Seaman, fyrrverandi landsliðsmarkmaður Englands. Seaman var einnig lærisveinn Wenger hjá Arsenal í sjö ár. 

Margir telja að Sarri verði rekinn á næstu vikum, eftir slæmt gengi að undanförnu. Enskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn félagsins séu farnir að leita að nýjum stjóra og segir Seaman að Wenger sé tilvalinn í starfið. Frakkinn er búinn að vera í fríi á leiktíðinni eftir 22 ár hjá Arsenal. 

„Starfið hjá Chelsea gæti losnað á næstunni. Wenger yrði mjög góður kostur. Hann gæti í raun verið mjög góður kostur alls staðar því hann er frábær stjóri. Hann hefur hins vegar sagt að hann vilji ekki koma aftur til Englands því hann elskar Arsenal,“ sagði Seaman í samtali við TalkSport. 

„Hann sagði að það yrði of sérstakt fyrir sig að keppa á móti Arsenal. Hann væri samt eflaust til í að koma aftur og sanna fyrir fólki að hann er ekki búinn að vera. Síðustu árin hjá Arsenal voru erfið og hann fékk harða gagnrýni sem hann átti ekki skilið,“ bætti Seaman við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert