Bale nýttur í kaup á Hazard eða Eriksen?

Gareth Bale hefur skorað 6 mörk í spænsku 1. deildinni …
Gareth Bale hefur skorað 6 mörk í spænsku 1. deildinni á leiktíðinni en ekki tekist að fylla í skarðið sem Cristiano Ronaldo skildi eftir. AFP

Spænska blaðið Marca segir að forráðamenn Real Madrid íhugi nú sterklega að losa sig við Gareth Bale næsta sumar en hann verður þá orðinn þrítugur og mun eiga þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið.

Bale hefur ekki staðið undir væntingum síðan hann kom til Real frá Tottenham árið 2013 en vonir stóðu til þess að hann myndi láta meira til sín taka eftir að Cristiano Ronaldo var seldur til Juventus í sumar. Bale hefur hins vegar ekki nýtt tækifærið og staðan er einfaldlega sú að þjálfarinn Santiago Solari vill frekar nota hinn 18 ára gamla Vinicius Junior, sem hafði ekki spilað einn einasta Evrópuleik fyrir þetta tímabil.

Bale byrjaði að spila aftur eftir meiðsli 27. janúar og hefur síðan spilað tvo leiki í byrjunarliði. Hann kom inn á sem varamaður gegn Girona um síðustu helgi en hafði lítið fram að færa, að því er segir í grein Marca. Wales-verjinn hafi hins vegar fengið næg tækifæri bæði undir stjórn Solari og Julen Lopetegui en ekki nýtt þau, og auk Junior sé Lucas Vazquez nú framar í goggunarröðinni.

Marca fullyrðir að þrátt fyrir allt sé Bale enn mikils metinn á Englandi og að Chelsea og Manchester United hafi bæði íhugað sterklega kaup á honum. Þá sé ekki hægt að útiloka að Tottenham vilji fá hann aftur. Fyrir Real Madrid sé sérstaklega spennandi að hefja viðræður við Chelsea og Tottenham þar sem hægt sé að nota Bale upp í kaup á Eden Hazard eða Christian Eriksen, sem báðir séu ofarlega á óskalista Madridinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert