Eftirmaður Sarri fundinn?

Steve Holland var aðstoðarþjálfari José Mourinho árið 2016.
Steve Holland var aðstoðarþjálfari José Mourinho árið 2016. AFP

Enska knattspyrnufélagið Chelsea íhugar nú að ráða Steve Holland, fyrrverandi þjálfara hjá félaginu og núverandi aðstoðarþjálfara Gareth Southgate hjá enska landsliðinu, sem eftirmann Maurizio Sarri, fari svo að félagið reki Ítalann. Guardian greinir frá. 

Holland fengi þá starfið út tímabilið og að öllum líkindum yrði nýr stjóri ráðinn að því loknu. Framtíð Sarri hjá Chelsea er í óvissu eftir slakt gengi á nýju ári. Liðið tapaði m.a 4:0 fyrir Bournemouth og 6:0 fyrir Manchester City og eru margir stuðningsmenn orðnir þreyttir á stjóranum. 

Flestir enskir fjölmiðlar telja að Sarri verði rekinn, takist honum ekki að vinna Manchester City í úrslitum deildabikarsins á sunnudaginn kemur. Þá kæmi til greina að ráða Holland, sem yrði áfram aðstoðarþjálfari enska landsliðsins, meðfram starfinu hjá Chelsea.  

Holland var í átta ár hjá Chelsea, fyrst sem þjálfari varaliðsins, síðan unglingaliðsins, áður en hann var í þjálfarateymi José Mourinho og Guus Hiddink hjá aðalliðinu. 

mbl.is