Guardiola skilur ekki Chelsea

Pep Guardiola skilur ekki menninguna hjá Chelsea.
Pep Guardiola skilur ekki menninguna hjá Chelsea. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist ekki skilja menninguna hjá Chelsea og hvers vegna félagið er duglegt að reka knattspyrnustjórana sína. Hann segir einnig að Maurizio Sarri þurfi meiri tíma sem stjóri liðsins. 

Framtíð Sarri er í óvissu eftir erfitt gengi eftir áramót. Liðið tapaði 4:0 fyrir Bournemouth og 6:0 fyrir Manchester City með stuttu millibili og eru stuðningsmenn Chelsea margir orðnir þreyttir á Ítalanum. 

„Stundum þurfa stjórar bara smá tíma þegar illa gengur. Þetta var líka svona á mínu fyrsta tímabili með City, samt var enginn að tala um að reka mig. Það var stutt við bakið á mér og það kom sér á endanum vel," sagði Guardiola, aðspurður um stöðu Sarri hjá Chelsea. 

„Þú þarft stöðuleika til að byggja eitthvað upp og þú færð engan stöðuleika ef þú ert alltaf að reka stjórann. Menningin hjá Chelsea er furðuleg því Conte varð Englandsmeistari, en svo var talað um að reka hann eftir tvo tapleiki tímabilið eftir," bætti Guardiola við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert