Ekki eðlilegt hvernig ég hagaði mér

Mauricio Pochettino var niðurlútur eftir tapið gegn Burnley í dag.
Mauricio Pochettino var niðurlútur eftir tapið gegn Burnley í dag. AFP

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, gæti átt yfir höfði sér refsingu frá enska knattspyrnusambandinu eftir að hann missti stjórn á skapi sínu eftir 2:1 tap gegn Burnley í dag.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn af varamannabekknum og lagði upp sigurmarkið er Tottenham missteig sig illa í toppbaráttunni en Pochettino var allt annað en sáttur í leikslok og lét Mike Dean dómara heyra það. Gestirnir voru óánægðir með fyrsta mark leiksins sem Chris Wood skoraði úr hornspyrnu sem aldrei átti að verða þar sem boltinn fór af leikmanni Burnley og aftur fyrir.

„Það er ekki eðlilegt hvernig ég hagaði mér,“ sagði hnugginn Pochettino við Sky Sports eftir leik. „Kannski er það vegna þess að ég vissi að það yrði erfitt að berjast á toppnum án þess að taka þrjú stig í dag.“

Aðspurður hvort hann búist við refsiaðgerðum frá knattspyrnusambandinu sagði Argentínumaðurinn: „Ég mun sætta mig við það sem gerist en vonandi fer þetta ekki lengra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert