Klopp hefur alltaf dáðst að Ferguson

Jürgen Klopp hefur alltaf haft miklar mætur á Sir Alex …
Jürgen Klopp hefur alltaf haft miklar mætur á Sir Alex Ferguson. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist alltaf hafa dáðst að Sir Alex Ferguson sem stýrði erkifjendunum í Manchester United til mikillar velgengni þar til hann settist í helgan stein árið 2013.

Klopp og lærisveinar hans mæta United á Old Trafford á morgun í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni og ræddi Þjóðverjinn meðal annars um Ferguson á blaðamannafundi sínum fyrir leik. Gaf hann í skyn að Skotinn, sem er nú orðinn 77 ára, hafi jafnvel mildast í garð Liverpool en félögin elduðu oft saman grátt silfur á stjóratíð hans.

„Hann er einn sá stærsti, ef ekki sá allra stærsti í knattspyrnu. Eftir allt sem hann afrekaði, hvar hann byrjaði og hvert hann kom félaginu, það er ótrúlegt,“ sagði Klopp um Ferguson sem endaði 26 ára bið United eftir meistaratitli og gerði félagið að því sigursælasta á Englandi.

„Ég hef alltaf dáðst að honum, úr fjarlægð var það auðvelt. Ég veit ekki hvernig það hefði verið ef ég væri búinn að vera hjá Liverpool í 20 ár. Það hefði kannski verið öðruvísi þar sem hann var afar kappgjarn og sagði ýmsa hluti áður en lið hans mættu United.“

Klopp heldur þó að Skotinn sé hrifinn af því sem Liverpool er að gera í dag. „Ég er nokkuð viss um að þegar hann stýrði United þá vildi hann ekki sjá Liverpool njóta velgengni. Hann vill það eflaust ekki núna heldur en hefur kannski aðeins mildast í garð okkar. Ég heyrði að honum líki vel við það sem við erum aðgera hérna.“

Manchester United tekur á móti Liverpool á Old Trafford klukkan 14:05 á morgun, sunnudag.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert