Stjóri Chelsea segir Guardiola heppinn

Maurizio Sarri og Pep Guardiola.
Maurizio Sarri og Pep Guardiola. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að kollegi hans hjá Englandsmeisturum Manchester City, Pep Guardiola, hafi verið heppinn að hafa fengið þann tíma sem hann þurfti til að byggja sér lið.

City fór illa með Chelsea fyrr í mánuðinum, vann 6:0, og liðin mætast aftur á morgun í úrslitaleik enska deildabikarsins. City getur þar unnið sinn fyrsta bikar af fjórum mögulegum á tímabilinu en liðið varð enskur meistari í fyrra eftir nokkuð dapurt fyrsta ár undir stjórn Guardiola.

„Hann var heppinn,“ sagði Sarri á blaðamannafundi sínum fyrir leikinn. „Félög sem velja að ráða Guardiola vita að hann þarf tíma til að búa til lið. Í mínu starfi þarf ég að ná úrslitum strax, ekkert annað.“

Sarri hefur verið mikið gagnrýndur undanfarið og snerust stuðningsmenn Chelsea meðal annars gegn honum fyrr í vikunni er Manchester United sló félagið úr ensku bikarkeppninni. Hann gæti þó engu að síður lyft sínum fyrsta bikar sem stjóri Chelsea á morgun, takist liðinu að hafa betur gegn City á Wembley.

mbl.is