Eitthvað sem ég reiknaði ekki með

Gylfi fagnar marki sínu gegn Cardiff í gærkvöld.
Gylfi fagnar marki sínu gegn Cardiff í gærkvöld. AFP

„Það er virkilega gaman að vera orðinn markahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni og ég er stoltur af því en þetta er eitthvað sem ég reiknaði ekki með að myndi gerast þegar ég byrjaði að spila í deildinni,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við mbl.is í dag.

Stjarna Gylfa skein skært í Wales í gærkvöld en hann skoraði tvö fyrstu mörk Everton í 3:0 sigri gegn nýliðunum og hann er þar með orðinn markahæsti Íslendingurinn í þessari sterkustu deild í heimi.

Gylfi er búinn að skora 57 mörk í ensku úrvalsdeildinni, 38 fyrir Swansea, 8 fyrir Tottenham og 15 fyrir Everton. Hann hefur skorað 11 mörk í deildinni á þessu tímabili sem er jöfnun á besta markaskori hans í deildinni á einu tímabili en Gylfi skoraði 11 mörk fyrir Swansea tímabilið 2015-16.

Gott að vera kominn með tveggja stafa tölu

„Þegar ég sá að það var möguleiki á að slá met Eiðs Smára þá fór ég að hugsa um að ég gæti náð að slá það og var virkilega ánægjulegt að gera það í gær. Nú hef ég tíu leiki til bæta þetta met enn frekar og að bæta met mitt yfir markaskor í deildinni á einu tímabili. Vonandi næ ég að bæta nokkrum mörkum við áður en tímabilinu lýkur. Það er gott að vera kominn í tveggja stafa tölu og mörkin í gær komu á góðum tíma því við þurfum nauðsynlega á sigri að halda,“ sagði Gylfi, sem var að búa sig undir að fara á létta æfingu með Everton-liðinu þegar mbl.is spjallaði við hann.

Gylfi fagnar öðru marki sínu gegn Cardiff.
Gylfi fagnar öðru marki sínu gegn Cardiff. AFP

Þú hefur ekkert verið að gæla við að ná þrennu í fyrsta sinn í deildinni?

„Ég á enn þá eftir að ná þrennu. Ég held að ég sé búinn að skora tvö mörk í leik fjórum eða fimm sinnum en hef alltaf verið tekinn út af. Það gerðist líka í gær og það var svolítið pirrandi en það er stutt í næsta leik og maður skilur þetta kannski eftir á,“ sagði Gylfi.

Gylfi segir að það hafi mjög ánægjulegt að landa sigri á erfiðum útivelli eftir þrjá tapleiki í röð en eftir sigurinn er Everton í 9. sæti deildarinnar.

„Það var mikill léttir fyrir okkur að komast aftur á sigurbraut. Við vorum orðnir pirraðir yfir gengi okkar síðustu vikurnar og það var því ansi gott að taka sterkan útisigur sem vonandi gefur okkur byr í seglin. Við myndum gjarnan vilja vera ofar í deildinni en raun ber vitni. Það er þéttur pakki í kringum sjöunda sætið og nú náum við vonandi að enda tímabilið vel og færa okkur upp um nokkur sæti.“

Skemmtilegasti leikurinn á tímabilinu

Það er engin smá leikur fram undan hjá Gylfa og félögum en þeir taka á móti toppliði Liverpool í deildinni á sunnudaginn.

„Þetta verður skemmtilegasti leikurinn á tímabilinu. Það verður mikið undir, bæði hjá Liverpool og okkur. Það er alltaf rosaleg stemning í þessum grannaleikjum og ég bíð spenntur eftir honum. Við mætum í þennan leik með gott veganesti og meira sjálftraust og við eigum harma að hefna frá fyrri leiknum þar sem Liverpool skoraði sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótartíma. Við getum unnið öll lið og líka tapað fyrir öllum en vonandi hittum við á góðan leik á sunnudaginn,“ sagði Gylfi.

Fyrir leikinn í gær sagðist Aron Einar Gunnarsson ekkert skilja í þeirra gagnrýni sem Gylfi hefur fengið hjá sumum aðilum en Gylfi er dýrasti leikmaður Everton, sem keypti hann frá Swansea fyrir einu og hálfu ári og greiddi fyrir hann 45 milljónir punda. Spurður út í þessi mál sagði Gylfi:

„Ég hef bara ekki verið að spá í þetta. Ég les ekki blöðin og fer ekki inn á þessar síður á netinu. Ég reyni bara að standa mig eins vel og ég get í hverjum leik og maður hlýtur að vera ágætur ef maður er gagnrýndur fyrir að vera búinn að skora 11 mörk á tímabilinu,“ segir Gylfi, sem fagnaði með stuðningsmönnum Everton í stúkunni á heimavelli Cardiff og gaf litlum drengjum treyjuna sem hann spilaði í.

Gylfi spáði Manchester City Englandsmeistaratitlinum í spjalli við undirritaðan fyrr í vetur og hann segist standa við þá spá núna.

„Ég held að City hafi þetta. Það eru auðvitað 30 stig eftir í pottinum en á síðustu vikum hefur þetta verið að hallast í áttina til Manchester City. Það er meiri reynsla hjá City-liðinu og breiddin meiri en vonandi verður þetta bara spennandi út allt mótið. Við gætum sett strik í reikninginn hjá Liverpool á sunnudaginn og við stefnum að sjálfsögðu að því að reyna að fá stig út úr þeim leik,“ sagði Gylfi Þór.

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef við vinnum ekki Andorra getum við sleppt því að hugsa um stórmót

Það styttist óðum í fyrstu leiki íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins en Gylfi og félagar hans í landsliðinu eiga tvo útileiki í næsta mánuði. Þeir mæta fyrst Andorra 22. mars og heimsmeisturum Frakka tveimur dögum síðar.

„Ég get ekki beðið eftir því að byrja undankeppnina og vonandi byrjum við hana vel og getum teflt fram okkar sterkasta liði. Margir af strákunum hafa í vandræðum með meiðsli. Við vorum heppnir með meiðsli í einhver fimm til sex ár en nú virðist það vera að koma í bakið á okkur. Ég held að fyrsti leikurinn á móti Andorra verði spilaður á gervigrasi. Margir af okkur hafa ekki spilað á slíkum velli í mörg ár.

Andorra er erfitt heim að sækja og mig minnir að Wales hafi átti í erfiðleikum og unnið aðeins 1:0 með marki frá Gareth Bale. Þetta verður ekki léttur leikur á móti Andorra en ef við vinnum ekki Andorra þá getum við alveg sleppt því að vera að hugsa um stórmót. Við verðum að ná þremur stigum í Andorra og reyna svo að stríða Frökkunum. Fjögur stig í þessum tveimur leikjum yrði algjör draumur,“ sagði Gylfi Þór.

mbl.is