Beckham mun spila undir stjórn Sir Alex

David Beckham.
David Beckham. AFP

Manchester United staðfestir á vef sínum í dag að David Beckham muni spila með Manchester United þegar það mætir Bayern München á Old Trafford 26. maí í sumar.

Þann dag verða liðin 20 ár frá því liðin mættust í sögulegum úrslitaleik í Evrópukeppni meistaraliða á Camp Nou í Barcelona þar sem United hafði betur 2:1 með því að skora tvö mörk í uppbótartíma og skoraði Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóri liðsins, sigurmarkið.

David Beckham, Nicky Butt og Paul Scholes, sem voru í hinum fræga '92 árgangi, munu spila með liði United sem og Gary Neville, Phil Neville, Denis Irwin, Jaap Stam,  Peter Schmeichel og Svíinn Jesper Blomqvist svo einhverjir séu nefndir. Og auðvitað mun Sir Alex Ferguson stýra liðinu í þessum leik.

„Ég er svo spenntur að koma aftur á Old Trafford. 1999 var stórt ár fyrir okkur og það verður sérstakt að rifja það upp. Að koma aftur saman með stjóranum verður risastórt. Ég get ekki beðið,“ segir Beckham á vef Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert