Áfall fyrir United

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Enn eru meiðsli að gera Manchester United lífið leitt en liðið verður í eldlínunni í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu annað kvöld.

Manchester United sækir Wolves heim klukkan 20 annað kvöld og þar mun liðið leika án belgíska framherjans Romelu Lukaku sem hefur verið sjóðandi heitur í síðustu leikjum og hefur skorað sex mörk í fjórum leikjum.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Lukaku sé að glíma við ökklameiðsli sem hann varð fyrir í sigri United gegn Paris SG í Meistaradeildinni. Lukaku tók engu að síður þátt í leiknum gegn Arsenal um síðustu helgi en meiðslin ágerðust eftir leikinn og afar ólíklegt er að hann verði með Manchester-liðinu annað kvöld og hann kemur líka til með að missa af leikjum Belga gegn Rússum og Kýpverjum í undankeppni EM.

Fyrir á meiðslalistanum hjá United eru Jesse Lingard, Juan Mata og Alexiz Sánchez en reiknað er með að Ander Herrera snúi til baka eftir að hafa misst af síðustu leikjum vegna meiðsla.

mbl.is