Porto var ekki á óskalistanum

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool segir að það hafi litla þýðingu að hafa slegið út Porto í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þegar liðin eigast við að nýju í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Liverpool sló Porto út í 16-liða úrslitunum í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. Liverpool vann fyrri leikinn á útivelli 5:0 en markalaust varð í seinni viðureigninni á Anfield.

„Hvað get ég sagt? Þetta er Porto og við höfum mætt því áður og vissum hversu góðir við þurftum að vera á síðasta ári gegn því. Úrslitin voru svolítið skrýtin. Þau voru góð fyrir okkur. Í seinni leiknum sáum við karakterinn í Porto og gæðin sem liðið hefur,“ sagði Klopp við heimasíðuna skömmu eftir dráttinn í Meistaradeildinni.

„Porto er andstæðingur sem við þurfum að undirbúa okkur fyrir og það munum við gera fyrir leikinn. Við erum með sérfræðing um Porto sem er í okkar liði sem Pep Lijnders er en hann hefur verið hjá Porto. Hann hefur alltaf talað um Porto af mikilli virðingu,“ sagði Klopp en Lijnders er í þjálfarateymi Liverpool en var þjálfari unglingaliðs Porto á árunum 2007-2014.

„Porto var ekki á óskalista mínum en nú verður liðið okkar mótherji og við munum bera virðingu fyrir því. Við munum vita um styrkleika Porto og svo verðum við að spila leikina.“

Sigurliðið úr viðureign Liverpool og Porto mætir sigurvegaranum úr einvígi Barcelona og Manchester United í undanúrslitunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert