Skilja ekkert í Scholes - sagði upp á WhatsApp

Paul Scholes á ferðinni sem leikmaður Manchester United.
Paul Scholes á ferðinni sem leikmaður Manchester United. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Oldham Athletic kveðast vera steinhissa á uppsögn Paul Scholes sem hætti óvænt störfum sem knattspyrnustjóri félagsins í gær eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í einn mánuð.

Þeir eru ekki síður undrandi á því hvernig hann stóð að uppsögninni en samkvæmt Sky Sports sendi hann stjórnarmönnum skilaboð í gegnum samskiptaforritið WhatsApp.

„Við hjá Oldham erum vonsviknir yfir ákvörðun Paul að segja af sér og undrandi á ástæðum þeim sem hann gefur upp. Félagið veitti Paul allan þann stuðning og völd sem hann óskaði eftir. Hann gaf ekki til kynna á neinn hátt að hann væri óánægður, formlega eða óformlega, áður en hann sagði upp, og gaf okkur ekki neitt tækifæri til að ræða málin. Hann sagði bara upp með skilaboðum og neitað að ræða það frekar,“ sagði Abdallah Lemsagam, stjórnarformaður Oldham, við Sky Sports.

„Það er erfitt starf að stýra knattspyrnuliði og við hefðum fundið lausnir með Paul ef við hefðum fengið tækifæri til þess. Við óskum honum  góðs gengis og þökkum honum fyrir hans framlag. Við hefjum strax leit að nýjum stjóra,“ sagði Lemsagam.

Samkvæmt Sky Sports hefur Oldham fengið fjölda umsókna um starfið. Félagið er frá samnefndum bæ í útjaðri Manchester og er í 14. sæti af 24 liðum í ensku D-deildinni. Liðið vann einn leik af sjö undir stjórn Scholes, sem er einn þekktasti knattspyrnumaður Englands á síðari árum og var í lykilhlutverki í sigursælu liði Manchester  United, sem og enska landsliðinu.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United og samherji Scholes á sínum tíma, sagði á fréttamannafundi í dag að hann hefði þegar boðið Scholes að ræða málin ef hann hafi áhuga á að snúa aftur til síns gamla félags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert