Brighton hafði betur í vítakeppni

Leikmenn Brighton fagna sigri gegn Millwall í vítakeppni.
Leikmenn Brighton fagna sigri gegn Millwall í vítakeppni. AFP

Brighton er komið áfram í undanúrslit ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir sigur í vítakeppni gegn B-deildarliði Milwall. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik en á 70. mínútu kom Alex Pearce Milwall yfir og Aiden O'Brien tvöfaldaði forystu Milwall á 79. mínútu.

Það virtist allt stefna í sigur Milwall þegar Jurgen Locadia minnkaði muninn fyrir Brighton á 88. mínútu og Solly March tókst að knýja fram framlengingu fyrir Brighton þegar hann jafnaði metin í uppbótartíma.

Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingunni og því var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Brighton hafði betur, 5:4. Brighton er því komið áfram í undanúrslit ensku bikarkeppninnar, líkt og Manchester City, Watford og Wolves.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert