Fékk kall frá guði

Heurelho Gomes ætlar sér að leggja hanskana á hilluna í …
Heurelho Gomes ætlar sér að leggja hanskana á hilluna í lok tímabilsins. AFP

Heurelho Gomes, markmaður enska knattspyrnufélagsins Watford, tilkynnti það á dögunum að hann ætlaði sér að leggja hanskana á hilluna í lok tímabilsins. Gomes hefur ekki átt fast sæti í liði Watford og hefur aðeins komið við sögu í sex leikjum með Watford á þessari leiktíð.

Gomes segist hafa fengið kall frá guði og íhugi nú að gerast prestur í heimalandi sínu. „Ég er tilbúinn að leggja hanskana á hilluna. Guð kallaði mig til sín og sagði mér að gerast prestur og ég er núna að íhuga það alvarlega að fara að ráðum hans,“ sagði Gomes í samtali við breska fjölmiðla á dögunum.

„Ég hef breyst mikið á undanförnum árum. Ég er alltaf að verða trúaðri og núna hef ég tækifæri til þess að miðla reynslu minni. Þegar guð byrjar að tala við mann þá fylgir maður fordæmi hans. Guð hefur gert mig að betri manni og ég er sterkari manneskja með hann í lífi mínu,“ sagði Gomes enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert