Gylfi fékk góða dóma

Gylfi í baráttu við Jorginho á Goodison Park í dag.
Gylfi í baráttu við Jorginho á Goodison Park í dag. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína með Everton sem í dag hafði betur gegn Chelsea 2:0 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Gylfi skoraði síðara mark Everton í leiknum en hann náði frákastinu eftir að Kepa Arrizabalaga hafði varið vítaspyrnu hans.

Gylfi fékk 7 í einkunn hjá Sky Sports en Gylfa brást bogalistin úr sinni þriðju vítaspyrnu fyrir Everton á leiktíðinni en hann hefur skorað úr tveimur. Miðjumaðurinn Idrissa Gueye fékk hæstu einkunn leikmanna Everton eða 8 og var hann valinn maður leiksins hjá Sky Sports.

Gylfi hefur skorað 12 mörk í deildinni á tímabilinu og hann hefur aldrei skorað fleiri mörk á einu tímabili í deildinni. Hann skoraði 11 mörk á einni leiktíð með Swansea.

mbl.is