Gylfi og Pogba í merkilegum hópi

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu gegn Chelsea um helgina ...
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu gegn Chelsea um helgina þegar hann fylgdi eftir að hafa klúðrað vítaspyrnu. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, er ásamt Paul Pogba, leikmanni Manchester United, með ansi merkilega tölfræði á tímabilinu.

Gylfi klúðraði vítaspyrnu í 2:0-sigri Everton gegn Chelsea um helgina, þótt hann hafi reyndar náð frákastinu og skorað. Þetta var hins vegar þriðja vítaspyrnan sem Gylfi klúðrar á tímabilinu, en Pogba hefur einnig þrívegis brennt af á vítapunktinum í vetur.

Fara þarf aftur til tímabilsins 2003-2004 til þess að finna síðast hvenær fleiri en einn leikmaður klúðraði þremur vítaspyrnum á sama tímabilinu. Þann veturinn voru það þeir Alan Shearer, leikmaður Newcastle, og Ruud van Nistelrooy, leikmaður Manchester United, sem brenndu af þremur vítaspyrnum hvor.

mbl.is