Kauptu Mané hvað sem hann kostar

Sadio Mané hefur leikið afar vel með Liverpool í vetur.
Sadio Mané hefur leikið afar vel með Liverpool í vetur. AFP

Sadio Mané, senegalski framherjinn sem hefur farið á kostum með Liverpool í vetur, er sagður með efstu mönnum á óskalista Zinedine Zidane, knattspyrnustjóra Real Madrid, fyrir næsta keppnistímabil.

France Football segir að Zidane hafi sett Mané á þriggja manna forgangslista sinn og hvatt forseta Real Madrid, Florentino Perez, að kaupa hann frá Liverpool, hvað sem það muni kosta.

Þá segir spænska blaðið Don Balon að Barcelona vilji líka fá Mané og að Lionel Messi sé sérlegur aðdáandi hans og sjái Senegalann sem fullkomna viðbót við sóknarlínu Katalóníuliðsins.

Don Balon segir jafnframt að Liverpool sé þegar búið að bregðast við þessu með því að tilkynna áhugasömum að þeir muni krefjast 150 milljóna evra, um 136 milljóna punda, fyrir Mané sem hefur skorað 17 mörk fyrir Liverpool í úrvalsdeildinni í vetur, og þrjú mörk í Meistaradeild Evrópu. Hann gerði nýjan langtímasamning við félagið fyrr á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert