Bolton fékk hálfs mánaðar frest

Eiður Smári Guðjohnsen er meðal þeirra Íslendinga sem hafa leikið …
Eiður Smári Guðjohnsen er meðal þeirra Íslendinga sem hafa leikið með Bolton. AFP

Enska knattspyrnufélagið Bolton Wanderers fékk í dag fjórtán daga frest til að koma fjármálum sínum í rétt horf en taka átti félagið til gjaldþrotaskipta í dag.

Lögmaðurinn Hilary Stonefrost, fulltrúi Bolton, skýrði dómstólnum í London sem var með málið í sínum höndum frá því að félagið væri komið með kaupanda, sem þegar ætti stóran hlut í háttskrifuðu knattspyrnufélagi. Hún bað um fjórtán daga frest til að félagið gæti gengið frá sölunni og komið skuldunum í skil. Farið var að ósk hennar.

Ken Anderson, sem á 94,5 prósenta hlut í félaginu hefur átt í miklum vandræðum með að fjármagna rekstur þess og stuðningsmenn Bolton hafa mótmælt framgöngu hans kröftuglega undanfarna mánuði.

Í gær staðfesti Bolton að fyrirhugaður kaupandi hefði hætt viðræðum við félagið en nokkrir möguleikar væru enn fyrir hendi.

Bolton er næstneðst í ensku B-deildinni og á yfir höfði sér að dregin verði 12 stig af liðinu ef ekki tekst að ganga frá fjármálunum innan tveggja vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert