Coutinho á leið til United?

Philippe Coutinho hefur ekki heillað í búningi Barcelona og gæti ...
Philippe Coutinho hefur ekki heillað í búningi Barcelona og gæti nú verið á förum. AFP

Philippe Coutinho, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, er sterklega orðaður við Manchester United í spænskum fjölmiðlum í dag. Sport á Spáni greinir frá því að forráðamenn Barcelona og Manchester United muni setjast niður saman og ræða leikmanninn eftir einvígi liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Fyrri leikur liðanna fer fram á Old Trafford þann 10. apríl næstkomandi en seinni leikurinn 16. apríl á Nývangi í Barcelona. Coutinho kom til Barcelona frá Liverpool í janúar á síðasta ári en hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans þegar Börsungar borguðu 145 milljónir punda fyrir þjónustu hans.

Stuðningsmenn Barcelona bauluðu á leikmanninn í sigri Barcelona gegn Rayo Vallecano þann 9. mars síðastliðinn en Coutinho hefur komið við sögu í 26 leikjum með Barcelona í deildinni á þessari leiktíð. Í þessum 26 leikjum hefur hann tíu sinnum komið inn á sem varamaður en hann hefur skorað fjögur mörk í deildinni í ár og lagt upp tvö mörk.

mbl.is