Scholes svarar ekki símanum

Paul Scholes, lengst til hægri og Abdallah Lemsagam fyrir miðju.
Paul Scholes, lengst til hægri og Abdallah Lemsagam fyrir miðju. Ljósmynd/twitter-síða Oldham

Paul Scholes svarar ekki í síma að sögn Abdallah Lemsagam, eiganda enska knattspyrnufélagsins Oldham, en Scholes hætti nokkuð óvænt sem þjálfari liðsins fyrr í mánuðinum.

Scholes, sem gerði garðinn frægan sem leikmaður Manchester United um árabil, stýrði liði Oldham í mánuð áður en hann sagði starfi sínu skyndilega lausu og það með því að senda forráðamönnum félagsins skilaboð á samfélagsmiðlinum WhatsApp.

Lemsagam er óánægður með þá neikvæðu umfjöllun sem Oldham hefur fengið í kjölfarið en hann vildi þó ekki tala illa um Scholes í viðtalið við Sky Sports. „Ég hef reynt að hringja í hann en hann svarar ekki. Þetta var sárt en svona er þetta, við óskum honum góðs gengis. Hann er góður maður og verður kannski einn daginn góður knattspyrnustjóri.“

Oldham leikur í D-deildinni á Englandi og situr þar í 15. sæti en liðið vann einn af sjö leikjum sínum undir stjórn Scholes. Þá hafa sögusagnir gengið þess efnis að Lemsagam hafi verið of afskiptasamur af starfi þjálfarans en þessu neitar hann.

„Ég var í burtu í þrjár af þessum fjórum vikum. Hvernig á ég að skipta mér af starfi þjálfarans þegar ég er að heimsækja fjölskyldu mína í Dubai? Í eina skiptið sem við töluðumst við spurði ég hvort við ættum að láta einn leikmann fara og hann var hlynntur því.“

mbl.is