Cardiff neitar að borga fyrir Sala

Emiliano Sala var kynntur til leiks hjá Cardiff.
Emiliano Sala var kynntur til leiks hjá Cardiff. Ljósmynd@Cardiffcity

Velska knattspyrnufélagið Cardiff, sem leikur í ensku úrvalsdeildinni, ætlar ekki að borga franska félaginu Nantes 15 milljónir fyrir framherjann Emiliano Sala. Sala lést í flugslysi á leið frá Nantes til Cardiff, eftir að félögin komust að samkomulagi um kaupverð og Sala var búinn að semja við Cardiff. 

Nantes hefur sent kvörtun til FIFA vegna málsins og hefur Cardiff frest til 3. apríl til að svara. Að sögn Cardiff hafnaði enska úrvalsdeildin félagsskiptunum og voru þau því ekki gild. Cardiff segir jafnframt að Nantes hafi farið fram á klásúlur í kaupverðinu, sem velska félagið hafði ekki samþykkt.

Franska félagið segist hafa farið eftir settum reglum og að FIFA hafi samþykkt félagsskiptin kl. 17:30 þann 21. janúar.  „Félagið veit af fresti FIFA til 3. apríl og við erum að íhuga næstu skref. Við tjáum okkur ekki meira að þessu sinni,“ sagði talsmaður Cardiff í dag. 

mbl.is