Ráðist á gamla stjörnu Liverpool

Gary McAllister.
Gary McAllister. Ljósmynd/Liverpool

Ráðist var á Gary McAllister, fyrrverandi leikmann Liverpool, í Leeds á laugardagskvöldið og var hann fluttur á sjúkrahús.

McAllister var á Anfield á laugardaginn þar sem hann fylgdist með gömlum hetjum Liverpool í góðgerðarleik gegn AC Milan. Eftir leikinn fór hann til Leeds ásamt eiginkonu sinni og þar sem þau voru að bíða eftir leigubíl var ráðist á McAllister. Hann var sleginn í andlitið og var fluttur á sjúkrahús þar sem sauma þurfti tíu spor í efri vör hans.

McAllister, sem er aðstoðarmaður Steven Gerrards, knattspyrnustjóra skoska liðsins Rangers, lék á árum áður með Liverpool, Leeds og fleiri liðum og þá spilaði hann 57 leiki með skoska landsliðinu.

mbl.is