Góðar fréttir úr herbúðum United

Dómarinn Jonathan Moss umkringdur leikmönnum Manchester United.
Dómarinn Jonathan Moss umkringdur leikmönnum Manchester United. AFP

Mikil meiðsli hafa herjað á leikmannahóp Manchester United síðustu vikurnar en eitthvað virðist vera að rofa til í þeim efnum.

Marcus Rashford, Luke Shaw, Nemanja Matic, Romelu Lukaku og Anthony Martial þurftu allir að draga sig út úr landsliðum sínum vegna meiðsla en líkur eru á að þeir verði klárir í slaginn á laugardaginn þegar United tekur á móti Watford í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir leikinn á móti Watford sækir Manchester United lið Wolves heim á þriðjudaginn og átta dögum síðar koma Spánarmeistarar Barcelona á Old Trafford og etja kappi við Manchester-liðið í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

mbl.is