Leikmaður ársins að mati Allardyce

Sam Allardyce.
Sam Allardyce. AFP

Raheem Sterling úr Manchester City og Virgil van Dijk úr Liverpool eru þeir leikmenn sem hvað helst koma til greina að verða fyrir valinu sem leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni. Sam Allardyce, margreyndur knattspyrnustjóri og fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins, er þó annarrar skoðunar en flestir.

„Ég myndi velja Sergio Agüero en þetta er erfitt val. Agüero hefur aldrei unnið þessa viðurkenningu og hann verðskuldar að hafa fengið hana síðustu árin. Hann er að gera þá hluti sem hann gerir alltaf,“ sagði Allardyce í samtali við talkSports.

Agüero er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni en Argentínumaðurinn hefur skorað 18 mörk, einu marki meira en Pierre-Emerick Aubameyang (Arsenal), Harry Kane (Tottenham), Mohamed Salah (Liverpool) og Sadio Mané (Liverpool).

Van Dijk hefur spilað frábærlega í hjarta varnarinnar hjá Liverpool sem hefur aðeins fengið á sig 18 mörk í 31 leik á tímabilinu.

Sterling hefur skorað 16 mörk í deildinni og hefur lagt upp níu í 27 leikjum City í deildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert