Vongóður um Rashford en Sánchez ekki með

Ole Gunnar Solskjær vonar að Marcus Rashford og Nemanja Matic verði klárir í slaginn með Manchester United annað kvöld en þá tekur liðið á móti Spánarmeisturum Barcelona í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Á blaðamannfundi í dag sagði Ole Gunnar að Alexis Sánchez muni ekki verða í leikmannahópnum á morgun en Sílemaðurinn er byrjaður að æfa eftir að hafa verið frá keppni síðustu fimm vikur vegna meiðsla. Ole Gunnar segir mögulegt að Sánchez verði með gegn West Ham á laugardaginn. Þá sagði Norðmaðurinn að Ander Herrera sé tæpur og verði líklega ekki með en hvorki Antonio Valencia né Eric Bailly eru leikfærir.

„Við vitum að við þurfum að bæta okkar leik og ná fram okkar besta ef við ætlum að ná góðum úrslitum á móti liði eins og Barcelona. Við náðum ekki góðum úrslitum á móti PSG á heimavelli en frammistaðan í seinni leiknum hefur gefið leikmönnum og stuðningsmönnum okkar trú á að það sé hægt að vinna Barcelona,“ sagði Ole Gunnar.

Spurður út í að mæta Lionel Messi sagði Ole Gunnar:

„Á þessu tímabili höfum við mætt Cristiano Ronaldo hjá Juventus og Kylian Mbappé hjá PSG. Nú eru það Lionel Messi og Luis Suárez. Þeir munu halda okkar varnarmönnum á tánum og við sjáum til hvernig gengur.“

Ole Gunnar á fréttamannafundi í dag.
Ole Gunnar á fréttamannafundi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert