Skíthræddur um að Liverpool vinni þetta

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það stefnir í æsispennandi baráttu Liverpool og Manchester City um Englandsmeistaratitilinn í ár og mbl.is fékk Eið Smára Guðjohnsen til að spá í spilin nú þegar lokaspretturinn er fram undan.

Liverpool, sem hefur ekki unnið enska meistaratitilinn í 29 ár, trónir á toppi deildarinnar með 82 stig og á fimm leiki eftir en ríkjandi meistarar Manchester City eru með 80 stig en eiga sex leiki eftir. Manchester City sækir Crystal Palace heim á laugardaginn en Liverpool tekur á móti Chelsea á sunnudaginn

„Algjörlega óháð því hvað ég vonast til að gerist þá er ég skíthræddur um að Liverpool vinni þetta,“ sagði Eiður Smári í samtali við mbl.is.

„Í ljósi úrslita eins og móti Tottenham fyrir um tíu dögum síðan þá hafa þau gefið Liverool mikinn byr í seglin fyrir þennan lokasprett. Ég held að fallið hefði verið rosalega mikið ef Liverpool hefði ekki náð að knýja fram þann sigur. Hausinn á mér myndi segja að Manchester City vinni deildina en alls ekki hjartað að Liverpool vinni. Ég get alveg verið nógu hlutlaus og sagt að sama hverjir vinni á endanum þá eigi þeir skilið.

Bæði lið hafa sýnt það að þau eru búin að vera yfirburðabest í vetur og eiga fyllilega skilið að vera á þeim stað sem þau eru. Ef Liverpool vinnur þá er það af því að það átti það skilið. Liverpool ásamt Manchester City hefur spilað ferskasta boltann, það hefur verið skemmtilegast að horfa á þau og mikil stemning í kringum liðin. Ekki það að Manchester City sé í einhverju uppáhaldi hjá mér þá get ég alveg borið virðingu fyrir því ef Liverpool verður meistari,“ sagði Eiður Smári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert