„Gætum séð skrítin úrslit á næstu vikum“

Maurizio Sarri á Anfield í dag ásamt aðstoðarmanni sínum Gianfranco …
Maurizio Sarri á Anfield í dag ásamt aðstoðarmanni sínum Gianfranco Zola. AFP

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, var svekktur eftir 2:0-tap sinna manna gegn Liverpool á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag en var þrátt fyrir það nokkuð sáttur með leik sinna manna. Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar með 66 stig, tveimur stigum meira en Manchester United, sem á leik til góða.

„Við spiluðum vel gegn frábæru liði Liverpool. Við vorum inni í leiknum í 50 mínútur en þetta var erfitt eftir annað mark þeirra. Að sama skapi fengum við þrjú frábær færi til þess að skora, eftir að þeir komust í 2:0, og heilt yfir er ég sáttur með leikmenn liðsins. Við töpuðum fyrir betra liði í dag en við erum á réttri leið.“

„Við vorum óheppnir að skora ekki en fyrir nokkrum mánuðum síðan hefðum við brotnað algjörlega og ekki tekist að halda okkur inni í leiknum. Það verður ekki auðvelt að ná Meistaradeildarsæti en við höldum áfram á meðan það er enn þá möguleiki. Það er komin þreyta í marga leikmenn og við gætum séð skrítin úrslit á næstu vikum,“ sagði Sarri í samtali við Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert