Arsenal aftur í fjórða sætið

Arsenal er komið á ný í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir sigur gegn Watford á útivelli, 1:0, í kvöld.

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði sigurmarkið strax á 10. mínútu leiksins eftir mikil mistök hjá Ben Foster í marki Watford. Hann var of seinn til þegar Augameyang pressaði hann og skaut boltanum beint í Gabonmanninn og í netið.

Aðeins mínútu síðar fékk Troy Deeney, fyrirliði Watford, rauða spjaldið fyrir að fara með olnboga í andlitið á Shkrodan Mustafi, varnarmanni Arsenal.

Manni færri í 80 mínútur gerði Watford samt oft harða hríð að marki Arsenal og Adam Masina var nærri því að jafna á 63. mínútu þegar hann átti þrumufleyg í markvinkilinn.

Arsenal er þá með 66 stig í 4. sæti, stigi á eftir Tottenham, en Chelsea er með 66 stig og Manchester United 64 í fimmta og sjötta sæti.

Watford er áfram í 10. sæti deildarinnar með 46 stig.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Watford 0:1 Arsenal opna loka
90. mín. Leik lokið Arsenal hirðir stigin þrjú
mbl.is