Sigur Tigers innblástur fyrir Cardiff

Neil Warnock knattspyrnustjóri Cardiff.
Neil Warnock knattspyrnustjóri Cardiff. AFP

Neil Warnock knattspyrnustjóri Cardiff City ræddi um kylfinginn Tiger Woods á fréttamannafundi í dag í aðdraganda leiks Cardiff gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer annað kvöld.

Cardiff berst fyrir lífi sínu en þegar liðið á fimm leiki eftir er það í þriðja neðsta sæti deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti. Warnock segir að sigur Tigers á Mastersmótinu sé innblástur fyrir Cardiff en eftir kynlífshneyksli, meiðsli í hné og baki og nokkrar aðgerðir tókst Tiger að vinna sitt fyrsta risamót í 11 ár.

„Við þurfum bara að horfa á golfið og hvað Tiger hefur gert. Þetta var ótrúlegt hjá honum. Enginn hafði trú á honum og hann hefur verið afskrifaður mörgum sinnum eins og við,“ sagði Warnock.

„Nú höfum við tækifæri að gefa okkur möguleika til loka tímabilsins og við verðum að grípa það,“ sagði hinn 71 árs gamli Warnock en lið hans hefur tapað þremur deildarleikjum í röð og þarf heldur betur að safna stigum úr fimm síðustu leikjum sínum til að forðast fall.

mbl.is