Fékk gamla góða takið í bakið

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. AFP

„Ég fékk bara gamla góða takið í bakið,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í samtali við mbl.is í kvöld en Aron lék fyrstu 55 mínúturnar í ákaflega mikilvægum sigri Cardiff gegn Brighton á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Aron Einar var öflugur á miðjunni á meðan hans naut við en fimm mínútum eftir að Cardiff skoraði seinna markið fór hann af velli.

„Þetta var heldur betur mikilvægur sigur og lífsnauðsynlegur fyrir okkur,“ sagði Aron Einar en Cardiff er áfram í fallsæti, er í þriðja neðsta sæti en er aðeins tveimur stigum á eftir Brighton, sem á leik til góða.

Cardiff tekur á móti toppliði Liverpool á sunnudaginn og spurður hvort hann verði klár í slaginn í þann leik sagði Aron; „Ekki spurning. Ég verð klár.“

Cardiff á fjóra leiki eftir sem eru gegn Liverpool (h), Fulham (ú), Crystal Palace (h) og Manchester United (ú).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert