United pakkað saman - Ronaldo úr leik

Messi fagnar marki í kvöld.
Messi fagnar marki í kvöld. AFP

Barcelona og Ajax tryggðu sér í kvöld farseðilinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu og stóru tíðindin eru þau að Cristiano Ronaldo hefur lokið keppni í Meistaradeildinni í ár.

Barcelona pakkaði Manchester United saman á Camp Nou 3:0 og vann einvígið samanlagt 4:0 og frábært lið Ajax gerði sér lítið fyrir og vann Juventus á útivelli 2:1 og samanlagt 3:2. Barcelona mætir sigurvegaranum úr viðureign Liverpool og Porto í undanúrslitunum en Ajax leikur við annað hvort Manchester City eða Tottenham.

United hóf leikinn vel á Camp Nou og Rashford átti  skot í slá og yfir markið strax á 1. mínútu leiksins. Börsungar tóku leikinn smátt og smátt í sínar hendur og argentínski snillingurinn Lionel Messi kom þeim í 1:0 með góðu skoti á 16. mínútu eftir að Ashley Young var að gaufa með boltann og tapaði honum í fætur Messi.

Messi,sem lék leikmenn United grátt allan leikinn, var svo aftur á ferðinni fjórum mínútum síðar. Skot hans með hægri fæti átti að vera auðvelt fyrir De Gea að verja en Spánverjinn gerði hroðaleg mistök og missti boltann undir sig. Það var svo Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho sem skoraði þriðja marki á 61. mínútu með glæsilegu skoti utan vítateigs. Barcelona er þar með komið í undanúrslit í fyrsta sinn í fjögur ár en United getur nú einbeitt sér að því að vinna sér sæti í Meistaradeildinni að ári.

Cristiano Ronaldo er úr leik í Meistaradeildinni.
Cristiano Ronaldo er úr leik í Meistaradeildinni. AFP

19 ára franherji skaut Ajax í undanúrslitin

Ajax heldur áfram að heilla heimsbyggðina með frábærri frammstöðu og í fyrsta skipti frá árinu 1997 er liðið komið í undanúrslitin. Cristiano Ronaldo kom Juventus yfir á 28. mínútu leiksins en Donny van de Beek jafnaði metin á 34. mínútu.

Það var svo hinn 19 ára gamli miðvörður Matthijs de Ligt sem skaut Ajax í undanúrslitin með marki á 67. mínútu og á leið sinn í undanúrslitin hefur Ajax slegið út bæði Real Madrid og Juventus og það á útivelli.

Cristiano Ronaldo var niðurbrotinn í leikslok en Portúgalinn hefur hampað Evrópumeistaratitlinum síðustu þrjú árin með Real Madrid og í fjögur skipti á síðustu fimm árum. Juventus keypti hann fyrir tímabilið með það að markmiði að vinna Meistaradeildina en nú er sá draumur á enda hjá Ítalíumeisturunum

Barcelona 3:0 Man. Utd opna loka
90. mín. Leik lokið +3 Öruggur sigur Barcelona í höfn. Liðið vinnur einvígið samanlagt 4:0.
mbl.is