Pogba getur ekki valið sér leiki

Paul Pogba í leiknum í gær. Leikmenn Barca fagna marki.
Paul Pogba í leiknum í gær. Leikmenn Barca fagna marki. AFP

Paul Parker tekur nafna sinn Paul Pogba til bæna hjá Eurosport og segir franska heimsmeistarann ekki geta leyft sér að velja sér leiki þar sem hann leggi sig fram. 

Parker segir það ekki nokkrum vafa undirorpið að Pogba sé á meðal hæfileikaríkustu leikmanna í heiminum. En vilji hann að litið sé á sig sem einn þann besta í heimi þá verði hann að ná meiri stöðugleika á vellinum. 

„Þú getur ekki valið hvenær þú vilt spila leiki og hvenær ekki. Það mun koma í bakið á þér.“

Parker segir eins og fleiri að Pogba hafi fengið upplagt tækifæri til að blómstra eftir að Solskjær tók við United-liðinu. 

„Allir sáu að það voru vandamál varðandi Mourinho og hvernig hann meðhöndlaði leikmenn. Þá gekk Pogba ekki vel. Þegar nýr stjóri kemur inn, tekur utan um þig og jarðar það sem á undan er gengið, þá máttu ekki bregðast honum. Það sem mikilvægara er þú mátt ekki bregðast samherjunum. Hafir þú áhuga á að vera leikmaður sem gæti átt þess kost að spila með Real Madrid þá munu menn þar á bæ aldrei sætta sig við frammistöðu eins og þessa gegn Barcelona né viðhorfið sem fylgdi,“ segir Parker meðal annars. 

mbl.is