Ferli Ramsey hjá Arsenal lokið?

Aaron Ramsey í baráttu við Allan hjá Napoli í leiknum ...
Aaron Ramsey í baráttu við Allan hjá Napoli í leiknum í kvöld. AFP

Útlit er fyrir að velski knattspyrnumaðurinn Aaron Ramsey hafi leikið sinn síðasta leik með Arsenal í kvöld en leikur liðsins gegn Napoli í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar stendur nú yfir á Ítalíu.

Ramsey þurfti að fara af velli á 34. mínútu þegar hann tognaði aftan í læri. Flautað hefur verið til hálfleiks og Arsenal er 1:0 yfir með marki frá Alexandre Lacazette, og þar með 3:0 samanlagt.

Ramsey yfirgefur Arsenal eftir þetta tímabil og gengur til liðs við Juventus en hætta er á að hann verði ekki orðinn leikfær á ný fyrr en eftir að Lundúnaliðið hefur spilað sinn síðasta leik.

Allt stefnir í að tvö ensk lið verði í undanúrslitum keppninnar en Chelsea er 4:1 yfir í hálfleik gegn Slavia Prag á Stamford Bridge og samanlagt 5:1.

mbl.is