United þarf yfirmann knattspyrnumála

Það hefur gengið illa hjá Solskjær upp á síðkastið eftir ...
Það hefur gengið illa hjá Solskjær upp á síðkastið eftir glæsilega byrjun. AFP

Manchester United ætti að ráða yfirmann knattspyrnumála til að hjálpa til við þá uppbyggingu sem félagið þarf. Það gæti tekið nokkur ár," segir Danny Higgonbotham, fyrrverandi leikmaður liðsins. 

United féll úr leik gegn Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og átti ekki nokkra möguleika gegn spænska liðinu, sérstaklega í seinni leiknum á útivelli. Barcelona vann heimaleikinn sinn 3:0 og einvígið samanlagt 4:0. 

Sky Sports greinir frá því að allt að sex mikilvægir leikmenn liðsins gætu yfirgefið félagið eftir tímabilið. „Þetta verður risastórt sumar. Solskjær er búinn að gera vel, en það breytir því ekki að United er mjög langt frá Manchester City og Liverpool í augnablikinu," sagði Higginbotham. 

United er nú búið að tapa fimm af síðustu sjö leikjum sínum og í leiðinni fallið úr leik í enska bikarnum, Meistaradeild Evrópu og fallið úr fjórum efstu sætum deildarinnar. 

„Félagið verður að ráða yfirmann knattspyrnumála. Þannig er fótboltinn í dag. Þeir þurfa að hafa einhvern til að hjálpa stjóranum og vera í sambandi við eigendurna líka. Það þarf millimann," sagði Higginbotham enn fremur. 

mbl.is