Ferli Ramsey hjá Arsenal ekki lokið

Aaron Ramsey tognaði aftan í læri í leiknum gegn Napoli.
Aaron Ramsey tognaði aftan í læri í leiknum gegn Napoli. AFP

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að Aaron Ramsey muni snúa aftur á völlinn fyrir Arsenal á næstu 2-3 þremur vikum. Ramsey, sem gengur í raðir Juventus í sumar, tognaði aftan í læri er Arsenal vann 1:0-útisigur á Napoli í Evrópudeildinni á fimmtudaginn var. 

Óttast var að tímabil Ramsey væri á enda vegna meiðslanna og að hann myndi ekki leika fyrir Arsenal á ný. Hann gæti hins vegar spilað úrslitaleik Evrópudeildarinnar, komist Arsenal þangað. 

„Batinn hefur gengið ótrúlega val. Hann er mjög mikilvægur fyrir okkur og hann getur enn þá hjálpað okkur. Meiðslin koma á slæmum tíma, en hann getur komið til baka og spilað eftir 2-3 vikur og vonandi tekið þátt í úrslitunum, ef við komumst þangað," sagði Emery í samtali við Sky Sports. 

mbl.is