Kominn tími til að vakna

Ole Gunnar Solskjær segir að leikmenn United þurfi að átta …
Ole Gunnar Solskjær segir að leikmenn United þurfi að átta sig á því að þeir séu að spila fyrir eitt stærsta félag heims. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að allir leikmenn liðsins þurfi að vakna og átta sig á því að þeir séu að spila fyrir stórlið Manchester United. Solskjær var mættur á blaðamannafund í morgun þar sem hann ræddi stærstu stjörnur liðsins en United mætir Everton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.

„Hugarfar flestra leikmannanna hefur breyst á undanförnum mánuðum. Það er samt sumir leikmenn sem þurfa að vakna og átta sig á því fyrir hvaða félag þeir eru að spila. Flestir eru þeir samt sem áður meðvitaður um að þeir geta bætt sig. Ég hef rætt einslega við marga leikmenn, þar á meðal Anthony Martial, og sagt þeim hvers við væntum af þeim hér hjá félaginu.“

„Anthony er gríðarlega hæfileikaríkur og hann er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning. Hann veit til hvers við ætlumst af honum og hann þarf að halda áfram að leggja hart að sér. Þegar að þú spilar fyrir félag eins og Manchester United þarftu að leggja hart að þér ef þú ætlar að spila regulega. Anthony er ekkert öðruvísi en Rashford, Lukaku eða Sánchez.“

„Þetta er undir þeim sjálfum komið, hvort þeir spila eða ekki. Þú getur hvergi falið þig í dag, hvorki á æfingum né í leikjum. Það eru allir að fylgjast með þér og það sjá allir hvað þú ert að gera rétt og hvað þú ert að gera rangt. Það þurfa allir leikmenn liðsins að stíga upp og axla ábyrgð, sérstaklega í stóru leikjunum, og við höfum rætt þetta vel eftir leikina gegn Barcelona,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert