„Ég var stærsta vandamálið“

Nemanja Matic í baráttu við Gyfa Þór Sigurðsson á Goodison ...
Nemanja Matic í baráttu við Gyfa Þór Sigurðsson á Goodison Park í dag. AFP

Serbneski miðjumaðurinn Nemanja Matic var að vonum niðurlútur eftir skellinn sem Manchester United fékk gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park í dag.

Matic lék sinn fyrsta leik með United frá því 30. mars en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Serbinn átti afar dapran dag eins og nær allir leikmenn United sem máttu þola 4:0 tap gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum hans í Everton.

„Það gekk ekkert upp hjá okkur í dag. Ég, sem er reyndasti maðurinn í liðinu, spilaði ekki vel. Við getum ekki kennt ungu strákunum upp. Ég var stærsta vandamálið,“ sagði Matic í viðtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2 eftir leikinn.

mbl.is