Endurheimtir Liverpool toppsætið?

Mohamed Salah er byrjaður að skora aftur.
Mohamed Salah er byrjaður að skora aftur. AFP

Liverpool og Manchester City munu halda áfram að skiptast á toppsætum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, takist Liverpool að leggja Aron Einar Gunnarsson og félaga í Cardiff að velli klukkan 15 í dag. Þá fá Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton lið Manchester United í heimsókn og Arsenal tekur á móti Crystal Palace.

Englandsmeistarar City hirtu toppsætið af Liverpool á nýjan leik í gær með því að hafa betur gegn Tottenham, 1:0, en Liverpool fer aftur á toppinn með sigri í dag og hefur þá leikið einum leik meira. City hefur 86 stig eftir 34 leiki og Liverpool 85 stig eftir jafnmarga leiki en markatala meistaranna er öllu betri, +65 gegn +57. City á svo leik til góða en það er nágrannaheimsóknin til Manchester United á miðvikudaginn.

Leikurinn er þó ekki síður mikilvægur fyrir Aron og félaga sem sitja í fallsæti þegar fjórar umferðir eru óleiknar. Cardiff er með 31 stig, þremur stigum frá Brighton og öruggu sæti en nú fer hver að verða síðastur að tryggja stöðu sína í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

United er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og þarf helst þrjú stig gegn Everton í hádegisleiknum. Gylfi Þór og félagar hafa þó verið á ágætri siglingu undanfarið, unnið þrjá af síðustu fjórum, og eiga einn möguleika á 6. sætinu og þar með sæti í Evrópudeildinni.

Þá gengur Gylfa iðulega vel gegn United en hann hefur skoraði fjögur mörk og gefið þrjár stoðsendingar gegn United á ferlinum.

Sem stendur er Arsenal í 4. sætinu og fer liðið upp í þriðja með sigri gegn Crystal Palace á heimavelli klukkan 15 í dag. Aðeins þrjú stig skilja að 3. og 6. sætið og baráttan um Meistaradeildarsæti því hörð.

Ole Gunnar Solskjær og lærisveinar hans í United hafa tapað …
Ole Gunnar Solskjær og lærisveinar hans í United hafa tapað fimm af síðustu sjö leikjum sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert