Glímir við meiriháttar vandamál

Ole Gunnar var brúnaþungur á Goodison Park í dag.
Ole Gunnar var brúnaþungur á Goodison Park í dag. AFP

Jamie Carragher sparkspekingur á Sky Sports var ekkert að skafa af því þegar hann fjallaði um frammistöðu Manchester United í leiknum gegn Everton á Goodison Park í dag.

Everton tók United í bakaríið og innbyrti 4:0 sigur þar sem stjarna Gylfa Þórs Sigurðssonar skein skært en hann skoraði eitt mark í leiknum og lagði upp eitt.

„Frá því að Manchester United vann titilinn síðast árið 2013 og frá því ég byrjaði að vinna fyrir Sky Sports er þetta lélegasti leikur Manchester United og það segir mikið um stöðu liðsins í dag. Solskjær glímir við meiriháttar vandamál og þetta er stærra verkefni en hann hélt,“ sagði Carragher eftir leikinn.

United er í 6. sæti, tveimur stigum á eftir Arsenal og Chelsea, sem á leik til góða gegn Burnley annað kvöld. United tekur á móti Manchester City á miðvikudag og fær Chelsea í heimsókn um næstu helgi.

mbl.is