Gylfa gengur best gegn United

Gylfa Þór Sigurðssyni líður vel á móti Manchester United.
Gylfa Þór Sigurðssyni líður vel á móti Manchester United. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton fá heimsókn frá Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta kl. 12:30 í dag. Manchester United er í harðri baráttu um fjórða sætið, sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni, á meðan Everton berst um sjöunda sæti og sæti í Evrópudeildinni. 

United er í sjötta sæti deildarinnar með 64 stig, tveimur stigum á eftir Chelsea og Arsenal. Eftir afar góða byrjun undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, hefur ekki gengið eins vel að undanförnu. 

Everton er í tíunda sæti með 46 stig, þemur stigum á eftir Watford, sem er í sjöunda sæti. Everton vann þrjá leiki í röð, áður en það mætti Fulham í síðustu umferð og tapaði óvænt. 

Gylfi Þór spilar oftast vel gegn Manchester United og í raun betur en gegn öðrum liðum deildarinnar. Gylfi er búinn að skora fjögur mörk og gefa þrjár stoðsendingar gegn United á ferlinum. Hann hefur ekki átt beinan þátt í fleiri mörkum gegn neinu öðru liði. 

Öll fjögur mörk Gylfa á móti United hafa komið á Old Trafford og verður áhugavert að sjá hvort Gylfi getur skorað í fyrsta skipti á heimavelli gegn Manchester United. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert