Hefði getað orðið bananahýði

Klopp og Virgil van Dijk ræða málin eftir leik.
Klopp og Virgil van Dijk ræða málin eftir leik. AFP

„Þetta hefði getað orðið bananahýði en strákarnir voru ótrúlegir. Þetta var mjög erfitt samt sem áður," sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir 2:0-sigur sinna manna á útivelli gegn Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. 

Liverpool er nú á toppi deildarinnar, með tveimur stigum meira en Manchester City sem á leik til góða. Staðan í hálfleik var markalaus, en Liverpool skoraði tvö mörk í seinni hálfleik, það síðara úr vítaspyrnu sem Mo Salah náði í. 

„Veðrið breyttist og leikurinn lifanaði við. Við vissum að við þurftum að vera þolinmóðir og gera réttu hlutina. Völlurinn var þurr, svo það var ekki auðvelt að spila boltanum. Strákarnir urðu hins vegar ekki pirraðir og bjuggu til færi. Þetta voru flott mörk og þetta var klárt víti."

Spennan á toppi deildarinnar er gríðarleg og þurfti Liverpool að vinna, enda í hörðum slag við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. 

„Ég fann ekki fyrir pressu fyrir leikinn, við verðum bara að halda áfram að gera það sem við höfum verið að gera. Leikmennirnir eru búnir að vera jákvæðir allt tímabilið," sagði Þjóðverjinn. 

mbl.is